Straumras.is

Fróðleiksmoli dagsins:

Í Straumrás er það jafnan svo að starfsmenn eru samstiga og er umhugað um að standa sig vel, bæði fyrir fyrirtækið og einnig fyrir viðskiptavinina og auðvitað einnig fyrir sjálfan sig . Það þarf ekki að verðlauna menn sérstaklega fyrir að standa sig vel í vinnunni en þó kemur fyrir að veittar eru viðurkenningar af ýmsu tilefni en ekki endilega vegna stórrar sölu…Góður brandari eða góð sala, sem þarf ekkert endilega að vera verðmæt í peningum getur alveg eins verið ástæða verðlaunaveitingar…Það sem ekki liggur í augum uppi verður nefnilega oft býsna stórt þótt síðar verði…….Verðlaunin eru ekkert merkileg svona á heimsvísu , engar utanlandsferðir og þessháttar….ekki einu sinni helgarferðir til Hríseyjar, en fyrir okkur sem erum að sýsla saman hér í Straumrás eru svona viðurkenningar þótt þær séu ekki dýrar í krónum talið dálítið merkilegar. Fyrst og fremst er þetta hugsað gamans en það hefur komið í ljós að þetta eflir andann og alveg lýgilegt hvað svona getur aukið á samhuginn á milli manna…þetta herðir menn í að gera vel og þetta er svona einka hjá okkur og engir aðrir eru í þessarri grúppu….við eigum eitthvað saman..aleinir. Ég hef ekkert skipulag á þessu kerfi, enda er niðurnjörfað skipulag ekki fyrir mig. Það eina sem er öruggt að allir starfsmenn fá viðurkenninugu í hvert sinn, gamla sagan Einn fyrir alla og allir fyrir einn og allt það. Af einhverri ástæðu hafa vinsælustu verðlaunin reynst vera Kókosbollur frá Völu.

Við tókum einnig upp á því af og til að veita viðskiptavinum Kókosbolluorðuna. Til að ákveða hver fær orðuna er notað sama kerfi og þegar starfsmenn fá kókosbollu. Það er að segja gamla góða reglan sem alltaf getur virkað og þarf aldrei að útskýra nánar: Í tilefni dagsins..

Fyrsti viðskiptavinurinn sem fékk Kókosbolluorðuna var eðalmaðurinn Konráð Jóhannsson hjá Ísfélaginu á Þórshöfn. Þetta gerðist í júlí 2012

Við sendum Konna skjal þessu til staðfestingar og auðvitað kassa af kókosbollum og reyndar slatta af harðfiski einnig. Að sjálfsögðu fengu allir starfsmenn Straumrásar sama dag kókosbollu og harðfisk líka…Allir fyrir einn og svo framvegis………

Nokkrum dögum síðar barst okkur þessi vísa frá Konna:

Óvænt fékk ég ætan pakka.
Út á það að vera til.
Fyrir bita og bollur þakka.
Og bestu kveðjur senda vil.

Jæja, Kemur nú loksins í beinu framhaldi ástæða þess að ég er að skrifa hér í dag:

Í dag er nefnilega kókosbolludagur í Straumrás. Við höfum opnað heimasíðu STRAUMRAS.IS Loksins. Það er auðvitað ýmislegt sem betur mætti fara og síðan er ekki fullbúin frekar en flestar slíkar. Það er margt í okkar vöruflóru sem ekki er komið inn á síðuna. Við munum bæta úr því eftir atvikum á næstunni. En við reynum okkar besta og óskum hér með eftir athugasemdum og góðum hugmyndum viðskiptavina um það sem betur mætti fara. Þessi síða er nefnilega fyrst og fremst hugsuð til þess að bæta samband okkar við ykkur viðskiptavini. Vonumst til þess að þessi gjörningur mælist vel fyrir, en minnum á símann okkar 4612288 og póstfangið straumras@straumras.is Þetta verða áfram öruggustu tengingarnar við okkur, fyrir utan auðvitað að mæta hér í búðina í eigin persónu.

Í tilefni þessa áfanga ætla starfsmenn Straumrásar að gúffa í sig kókosbollum í dag. En það er bara ein á mann…bara ein…..

Á meðfylgjandi mynd má sjá góða fulltrúa viðskiptavina og starfsmanna Straumrásar. Hinrik K Hinriksson og Þorberg Aðalsteinsson. Þessir gæðadrengir eru að undirbúa að klippa á borða til staðfestu þess að STRAUMRAS.IS hafi formlega opnað.