Hér eru nýjustu fréttir í Straumrás. Ástandið breytist daglega í heiminum, ekki bara hjá okkur.
Eftir langa umhugsun, pælingar í fréttum og umræður starfsmanna er þetta staðan í dag, en gæti þó orðið önnur á morgun.
Sem sagt. Við erum enn að þrengja aðeins aðgang viðskiptavina að búðinni okkar.
Erfið og ömurleg ákvörðun en með heill og hag starfsmanna, fyrirtækisins og viðskiptavina okkar að leiðarljósi tel ég þetta réttu leiðina núna í dag.
Með þessu móti teljum við okkur, allavega um sinn með þokkalegu móti og nokkru öryggi geta sinnt þeim málum sem mestu máli skipta.
Eins og áður hefur komið fram erum við í Straumrás illa í stakk búnir til þess að skipta starfsliði okkar niður í hópa.
Undanfarnar vikur hafa 40% starfsmanna verið veikir. Sumir starfsmenn eru með undirliggjandi heilsuvandamál sem að sögn sérfræðinga er ekki gott að blandist covid19 .
Meðal annars í ljósi þessa verður frá og með morgundeginum tekið upp nýtt vinnulag í Straumrás.
Þeir starfsmenn sem eru frískir mæta í vinnu samkvæmt venju en viðskiptavinir fá bara aðgang að rétt rúmlega forstofunni hjá okkur og tala við okkur þaðan, vinsamlega virðið það og virðið 2 metra bilið á milli manna.
Önnur aðferð og ekki verri er að viðskiptavinir hringi (4612288) eða sendi okkur pantanir í tölvupósti. (Straumras@straumras.is) .
Við munum svo eftir atvikum afhenda vörurnar þegar viðskiptavinur sækir eða láta vörurnar út fyrir dyrnar.
Þessi gjörningur er okkur þvert um geð en er okkar leið til þess að reyna að draga úr áhrifum covid19 á okkar nærumhverfi.
Við vonumst til þess að með þessu takist okkur að halda þolanlegri þjónustu við þá viðskiptavini sem alls ekki geta með góðu móti án okkar verið.
Við trúum og treystum að þessi aðgerð mæti skilningi og við trúum því einnig og treystum að okkur takist með góðri samvinnu okkar og ykkar að leysa úr þeim málum sem brýnust eru og alls ekki mega klikka.
Bestu kveðjur.